Almennu Þjónustuskilmálar
Ísland
Síðasta uppfærsla: 6. október 2025
ÁÐUR EN ÞÚ NOTAR WOLT MARKAÐSTORGIÐ, VERSLUNINA, AKSTURINN, SJÁLFSAFHENDINGU, EÐA EINHVERJA AÐRA WOLT VÖRU EÐA ÞJÓNUSTU, VINSAMLEGAST LESTU ÞESSA ALMENNU ÞJÓNUSTUSKILMÁLA (“ALMENNIR SKILMÁLAR”) VANDLEGA. MEÐ ÞVÍ AÐ UNDIRRITA SKRÁNINGARFORM WOLT EÐA NOTA VETTVANGINN SAMÞYKKIR ÞÚ, ALLIR AÐILAR SEM ÞÚ KEMUR FRAM FYRIR HÖND EINS OG FRAM KEMUR Í SKRÁNINGARFORMINU OG ALLAR STAÐSETNINGAR ÞÍNAR (,,ÞÚ” EÐA ,,SÖLUAÐILI”) AÐ VERA BUNDIN ÞESSUM ALMENNU SKILMÁLUM TIL VIÐBÓTAR VIÐ SKILMÁLANA Í SKRÁNINGARFORMI ÞÍNU EÐA VÖRUVIÐAUKA. TIL WOLT OG SÖLUAÐILA ER SAMEIGINLEGA VÍSAÐ Í ÞESSUM ALMENNU SKILMÁLUM SEM ,,AÐILARNIR” OG HVER FYRIR SIG SEM ,,AÐILI”.
1. INNGANGUR
Wolt býður upp á úrval tæknivara, þjónustu og lausna („Wolt Vörur“) til að gera söluaðilum kleift að efla rekstur sinn. ,,Söluaðilar” eru veitingastaðir, matvöruverslanir og/eða önnur fyrirtæki sem selja vörur eða þjónustu til neytenda og/eða fyrirtækja.
Wolt óskar eftir að veita söluaðila Wolt vörur og söluaðili samþykkir þær vörur, þjónustur og tæknilausnir samkvæmt skilmálum þessa samnings. Söluaðili getur valið að taka þátt í tilteknum Wolt vörum með því að samþykkja skilmála gildandi vöruviðauka.
2. SKILGREININGAR
„Efni Söluaðila“ merkir það efni sem Söluaðili veitir Wolt í tilefni þessa samnings sem hlaðið er upp, sent eða geymt á annan hátt í Wolt vöru. Slíkt efni getur falið í sér vörulýsingar, vörumerki, lógó, eiginleika, nákvæmar lýsingar, myndir, ljósmyndir, endurgjöf, tillögur og annað sambærilegt efni.
„Endurgjöf“ merkir allar athugasemdir, tillögur eða hugmyndir til úrbóta varðandi Wolt vörur eða mat söluaðila og notkun hans á Wolt vörum.
„Gildandi lög“ merkir gildandi lög, samþykktir, reglugerðir og þær reglur sem eru í gildi hverju sinni.
„Hlutdeildarfélag“ merkir einingu sem beint eða óbeint, í gegnum einn eða fleiri milliliði, stjórnar, er stjórnað af, eða er undir sameiginlegri stjórn með Wolt, þar sem „stjórn“ merkir vald til að stýra eða hafa áhrif á stjórn, stefnu eða viðskiptastarfsemi viðkomandi einingar með atkvæðisrétti, samningi eða öðrum hætti.
„Óviðráðanlegir atburðir“ merkir atburðir sem eru utan eðlilegrar stjórnar viðkomandi aðila, þ.m.t. náttúruhamfarir eða önnur alvarleg veðurskilyrði, verkföll eða hernaðaraðgerðir, viðskiptabönn, faraldur eða heimsfaraldur, stríð, hryðjuverk og óeirðir, verkföll, verkbönn, atburðir sem hafa áhrif á umferð, flutninga og vörustjórnun, opinber fyrirmæli, netárásir, netleysi, bilun eða truflun á eðlilegri starfsemi samskiptaneta eða netgrunnvirkja, og truflun á þjónustu þriðja aðila eða samskiptaþjónustuaðila.
„Persónuupplýsingar“ merkir allar upplýsingar sem varða persónugreindan eða persónugreinanlegan einstakling.
„Samningur“ merkir samninginn milli Wolt og söluaðila, sem samanstendur af skráningarformi, almennum þjónustuskilmálum, viðeigandi vöruviðauka og/eða öðrum viðhengjum eða fylgigögnum sem geta verið hluti af samningnum.
„Wolt“ þýðir Wolt Enterprises Iceland ehf., Efstaleiti 5, 103 Reykjavík, Ísland, kennitala 640123-1170, VSK--númer 147744.
„Wolt gögn“ merkir allar upplýsingar sem Wolt veitir eða gerir aðgengilegar söluaðilum, þ.m.t. persónuupplýsingar.
3. ÁBYRGÐ
3.1 Wolt og söluaðili munu sinna þeim skyldum sem útlistaðar eru í viðeigandi vöruviðauka eða eru á annan hátt tilgreindar í samningnum.
3.2 Að því marki sem nauðsynlegt er vegna eðlis þeirra vara eða þjónustu sem söluaðili selur, skal söluaðili einnig fylgja öllum viðbótarleiðbeiningum Wolt.
3.3 Söluaðili skal, án ótilhlýðilegrar tafar, upplýsa Wolt um allar breytingar á upplýsingum sem Wolt eru veittar í tengslum við þennan samning, þ.m.t. breytingar á eignarhaldi, breytingar á upplýsingum um tengilið eða viðskiptafulltrúa, upplýsingum um bankareikning eða upplýsingum um stað reksturs eða þjónustu. Söluaðili mun leggja fram gögn þessu til stuðnings eins og Wolt kann að óska eftir.
4. GREIÐSLUR
4.1 Söluaðili samþykkir að greiða viðeigandi gjald/gjöld eins og sérstaklega er sett fram í samningnum. Hvor aðili um sig ber ábyrgð á eigin kostnaði. Söluaðili samþykkir að tilkynna Wolt um hvers kyns deilur, ágreining eða vandamál varðandi viðskipti, gjald eða pöntun innan fjórtán (14) daga frá viðeigandi viðskiptum, gjaldi eða pöntun.
4.2 Wolt hefur rétt á að skuldajafna allar ógreiddar innheimtar fjárhæðir sem eru gjaldskyldar til Wolt við framtíðargreiðslur til söluaðila.
4.3 Wolt getur haldið eftir greiðslum og hafnað tilteknum bankakerfum eða -reikningum til að koma í veg fyrir svik, afbrot eða sambærilega háttsemi.
4.4 Wolt (eða þriðji aðili sem Wolt hefur heimilað) skal hafa rétt til að sannreyna lánshæfismat söluaðila frá lánshæfismatsfyrirtækjum hvenær sem er og vinna úr slíkum gögnum í innri viðskiptatilgangi, þ.m.t. í tengslum við þjónustuframboð til söluaðila.
5. SKATTAR
Söluaðili ber ábyrgð á öllum sköttum, tollum og öðrum opinberum gjöldum sem eru tilkomin vegna sölu á vörum sínum og þjónustu samkvæmt samningi þessum og að standa skil á slíkum sköttum, tollum og öðrum opinberum gjöldum til viðeigandi yfirvalda, þ.m.t. virðisaukaskatti (VSK). í mörgum lögsagnarumdæmum er heimilt að setja fram viðbótarskilmála í tengslum við skattskyldu viðkomandi aðila í viðeigandi vöruviðauka.
6. HUGVERKARÉTTINDI
6.1 Á gildistíma samningsins veitir Wolt söluaðila gjaldfrjálst, óframseljanlegt, óyfirfæranlegt, afturkallanlegt, takmarkað leyfi, án einkaréttar og án möguleikans að veita undirleyfi, sem er að fullu greitt fyrir til að nota og fá aðgang að Wolt vörum eingöngu til að framkvæma skuldbindingar samkvæmt samningi þessum. Wolt á eða hefur réttindi yfir Wolt vörum.
6.2 Söluaðili má hvorki sjálfur, né leyfa þriðja aðila að: (a) selja, veita leyfi til notkunar á, leigja, endurselja, leigja út, framselja (nema eins og heimilað hér), flytja eða á annan hátt hagnýta Wolt vörur í atvinnuskyni; (b) sniðganga eða slökkva á öryggi eða öðrum tæknilegum eiginleikum eða ráðstöfunum, eða reyna með öðrum hætti að öðlast eða reyna að öðlast óheimilaðan aðgang að Wolt vörum; (c) endurgera, taka í sundur, aflaga eða á annan hátt reyna að komast yfir frumkóðann eða undirliggjandi hugmyndir, reiknirit, uppbyggingu eða skipulag Wolt vöru nema slíkar aðgerðir séu heimilaðar samkvæmt ófrávíkjanlegu ákvæði í gildandi lögum; (d) nota Wolt vörur á nokkurn þann hátt eða í þeim tilgangi sem brýtur í bága við lög; og (e) nota Wolt vörur í þeim tilgangi að þróa samkeppnisvöru eða þjónustu eða af öðrum ástæðum en eins og sérstaklega er kveðið á um eða ætlað samkvæmt þessum samningi (þar með talið í viðeigandi vöruviðauka).
6.3 Söluaðili veitir Wolt og hlutdeildarfélögum þess gjaldfrjálst, takmarkað, afturkallanlegt og óframseljanlegt leyfi, án einkaréttar, til að nota, breyta, afrita, dreifa, gefa út og birta nafn eða vörumerki söluaðila og efni söluaðila í tengslum við veitingu þjónustu og Wolt vara til söluaðila, og til markaðssetningar og kynningar á Wolt og hlutdeildarfélögum þess, og deila efni söluaðila með þriðja aðila í tengslum við þennan samning.
6.4 Söluaðili ábyrgist að hann eigi allt efni söluaðila eða hafi aflað allra tilskilinna réttinda eða leyfa sem þarf til að stunda starfsemi sína í tengslum við Wolt vörur og að efni söluaðila brjóti ekki og muni ekki brjóta í bága við, raska eða misnota hvers kyns persónuleg réttindi eða eignaréttindi þriðja aðila.
6.5 Söluaðili kann að veita Wolt endurgjöf. Söluaðili veitir hér með og samþykkir að veita Wolt allan rétt, eignarrétt og eignarhald á slíkri endurgjöf á óheftum grundvelli og án endurgjalds.
7. PERSÓNUVERND OG ÖRYGGI GAGNA
7.1 Söluaðili samþykkir að fá ekki aðgang að, safna, geyma, varðveita, flytja, nota, miðla eða vinna með Wolt gögn, nema eftir því sem krafist er til að framkvæma skyldur samkvæmt þessum samningi eða samkvæmt gildandi lögum. Söluaðili skal halda Wolt gögnum öruggum gegn óviðkomandi aðgangi og tryggja nákvæmni og heilindi Wolt gagna í vörslu eða stjórn söluaðila með því að nota viðeigandi verndarráðstafanir. Söluaðili samþykkir að innleiða öryggisráðstafanir, samskiptareglur eða aðgangsstýringar eins og sanngjarnt er að Wolt óski eftir og mun bera ábyrgð á tjóni sem stafar af því að söluaðili hafi ekki fylgt þessu.
7.2 Allir viðbótarskilmálar um persónuvernd og öryggi gagna sem krafist er til að uppfylla persónuverndarreglur sem gilda um sambandið geta verið settir fram í viðeigandi vöruviðauka. Söluaðili mun koma á, viðhalda og framkvæma upplýsingaöryggisáætlun, þ.m.t. viðeigandi stjórnunar-, tækni-, skipulags- og líkamlegar öryggisráðstafanir, sem eru hannaðar til að: (a) tryggja öryggi og trúnað persónuupplýsinga; (b) vernda gegn óheimilum aðgangi eða notkun slíkra persónuupplýsinga; og (d) tryggja rétta förgun eða eyðingu slíkra persónuupplýsinga.
7.3 Hver aðili skal ávallt fara eftir gildandi lögum um persónuvernd og öryggi gagna. Ef söluaðili verður meðvitaður um óheimilan aðgang að eða tap á persónuupplýsingum skal hann þegar í stað grípa til viðeigandi úrbóta.
8. ÞJÓNUSTUSTIG
8.1 Nema um annað sé samið eða sett fram í vöruviðauka eru Wolt vörur veittar „eins og þær eru“ og „eins og þær eru tiltækar“. Wolt ábyrgist ekki að Wolt vörur verði órofnar, tímanlegar, öruggar, án villna eða án vírusa, né ábyrgist Wolt þann árangur sem fæst með notkun á Wolt vöru eða þeim upplýsingum sem fást með notkun söluaðila á Wolt vöru.
8.2 Einkum, nema um annað sé samið, ber Wolt engin skylda til að ná ákveðnu eða lágmarksmagni pantana eða ákveðnu magni viðskipta.
8.3 Wolt ber ekki ábyrgð á truflunum á frammistöðu vegna óviðráðanlegra atburða.
9. SKAÐLEYSI
Söluaðili skal verja, bæta og halda skaðlausum Wolt og hlutdeildarfélögum, yfirmönnum, stjórnendum og starfsmönnum Wolt eða hlutdeildarfélags, fyrir og gegn kröfum þriðja aðila og aðgerðum, þar með talið en ekki bundið við sanngjarnan lögfræðikostnað, sem kunna að leiða af eða stafa frá vörum eða þjónustu söluaðila, veittum upplýsingum, rangfærslum eða vanrækslu söluaðila, efni söluaðila eða broti söluaðila á samningnum.
10. TAKMÖRKUN ÁBYRGÐAR
10.1 Hvorugur aðili skal bera ábyrgð gagnvart hinum aðilanum á neinu óbeinu tjóni, þ.m.t. töpuðum hagnaði, tapaðri sölu eða viðskiptum, töpuðum gögnum eða truflunum á viðskiptum.
10.2 Nema um annað sé samið eða sett fram í vöruviðauka, skal ábyrgð hvors aðila um sig vegna beins tjóns, í öllum atvikum sem gefa tilefni til kröfu takmarkast við (i) þóknun og gjöld sem söluaðili greiddi eða ber að greiða á þriggja (3) mánaða tímabili fyrir atvikið sem gaf tilefni til kröfunnar, eða (ii) eitt þúsund evrur, hvort sem er hærra.
10.3 Ef umsamin takmörkun ábyrgðar er ekki heimil samkvæmt lögum skal ábyrgð aðila takmörkuð að því marki sem slík lög heimila.
10.4 Takmörkunin sem sett er fram í þessum kafla gildir ekki (a) ef tjóni er valdið af ásetningi eða af stórfelldu gáleysi, (b) ef um andlát eða líkamstjón er að ræða, (c) um skyldu söluaðila til að halda Wolt skaðlausu eða (d) ef tjón stafar af broti á skyldum eða ábyrgð söluaðila til að vernda Wolt gögn eða af því að söluaðili brýtur trúnaðarskyldu sína.
11. TRÚNAÐUR OG GAGNANOTKUN
11.1 Aðilar skulu meðhöndla sem trúnaðarmál og ekki afhenda þriðja aðila efni eða upplýsingar sem berast frá hinum aðilanum og sem merktar eru sem trúnaðarmál eða sem ber að skilja að séu trúnaðarmál, og skulu ekki nota slíkt efni eða upplýsingar í öðrum tilgangi en kveðið er á um í samningi þessum.
11.2 Þessari þagnarskyldu skal þó ekki beitt um efni eða upplýsingar:
sem er almennt aðgengilegt eða á annan hátt opinbert eða
sem aðilinn hefur fengið frá þriðja aðila án nokkurrar skyldu til að gæta trúnaðar eins og staðfest er af skriflegum gögnum slíks aðila, eða
sem aðili hefur þróað sjálfstætt án þess að nota efni eða upplýsingar sem berast frá hinum aðilanum eins og staðfest er í skriflegum skrám þess aðila, eða
sem aðila er skylt að veita á grundvelli gildandi ófrávíkjanlegra laga, reglugerða opinberra yfirvalda eða dómsúrskurða. Ef upplýsingagjöf fer fram á grundvelli (d) liðar skal viðkomandi aðili tafarlaust tilkynna hinum aðilanum um slíka upplýsingagjöf.
11.3 Til skýringar skulu viðskiptalegir og aðrir skilmálar í samningnum sem ekki eru aðgengilegir opinberlega meðhöndlaðir sem trúnaðarupplýsingar Wolt.
11.4 Þetta ákvæði kemur ekki í veg fyrir aði Wolt miðli trúnaðarupplýsingar til hlutdeildarfélaga sinna eða til þriðju aðila til að uppfylla þennan samning, eða noti gögn sem söluaðili veitir á samsteyptu og nafnlausu formi.
11.5 Réttindi og skyldur samkvæmt þessum kafla skulu gilda í 5 ár þrátt fyrir að samningur þessi renni út eða sé sagt upp. Allar upplýsingar sem flokkast sem viðskiptaleyndarmál skulu þó meðhöndlaðar sem trúnaðarmál svo lengi sem upplýsingarnar eru áfram viðskiptaleyndarmál samkvæmt gildandi lögum.
12. TRYGGINGAR
Söluaðili skal hafa í gildi nægilegar tryggingar til að standa straum af rekstri sínum og hugsanlegum ábyrgðum samkvæmt samningnum. Að lágmarki skal söluaðili hafa almenna ábyrgðartryggingu án undantekninga sem varða rekstur, vörur og þjónustu söluaðila.
13. Eftirfylgni við lög og reglur
Hver aðili skal fara að öllum gildandi lögum og reglum, þ.m.t. þeim sem tengjast refsiaðgerðum, vörnum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, sem og vörnum gegn spillingu og gegn mútum, sem og viðeigandi kröfum um góða viðskiptahætti sem settar eru fram í leiðbeiningum um Wolt samstarfsaðila sem er til dæmis hægt að nálgast hér: https://explore.wolt.com/en/fin/speakup.
14. GILDANDI LÖG
Samningurinn skal fara eftir lögum þess lands þar sem Wolt er skráð, að undanskildum ákvæðum um lagaskil. Allur ágreiningur vegna samningsins skal leystur af lögbærum dómstólum höfuðborgarinnar í landinu þar sem Wolt er skráð.
15. GILDISTÍMI, UPPSÖGN OG STÖÐVUN
15.1 Samningurinn öðlast gildi þegar söluaðilinn hefur undirritað, rafrænt eða handskrifað, eða samþykkt á annan hátt (t.d. með því að smella á “ég samþykki”) samninginn og viðeigandi könnun Wolt á fyrirtækinu hefur reynst fullnægjandi. Réttaráhrif einfaldrar eða háþróaðrar rafrænnar undirritunar (þ.m.t. samþykki skilmála með smelliferli) skal teljast jafngild handskrifaðri undirritun. Samningurinn verður áfram í gildi þar til hann rennur út eða er sagt upp í samræmi við samninginn, eða þar til allir viðeigandi vöruviðaukar renna út eða er sagt upp, hvort sem á undan kemur.
15.2 Á reynslutímabilinu (ef við á) er hvorum aðila um sig heimilt að segja samningnum upp þegar í stað með skriflegri tilkynningu. Eftir að reynslutímabili lýkur getur annar hvor aðilinn sagt upp samningi þessum eða sérhverjum vöruviðauka af hvaða ástæðu sem er með að minnsta kosti þrjátíu (30) daga fyrirvara að undangenginni skriflegri tilkynningu til hins aðilans.
15.3 Hvor aðili um sig getur sagt samningnum upp með skriflegri tilkynningu tafarlaust, án þess að bera á neina ábyrgð og án tillits til þess hvort ákveðinn samningstími hafi verið umsaminn ef (a) hinn aðilinn hefur fremur verulegt brot á samningnum eða (b) hinn aðilinn hættir rekstri eða er á annan hátt ófær um að uppfylla skyldur og/eða skuldbindingar sínar samkvæmt samningnum.
15.4 Með skriflegri tilkynningu á Wolt rétt á að stöðva framkvæmd samningsins tafarlaust í heild eða að hluta til, eða rifta samningnum strax, án ábyrgðar og án tillits til þess hvort ákveðinn samningstími hafi verið umsaminn, ef Wolt hefur réttmætar ástæður til að ætla að vörur eða þjónusta söluaðila séu óöruggar, gallaðar, notaðar í ólöglegum eða sviksamlegum tilgangi eða uppfylli ekki sanngjarnar kröfur Wolt, brjóta gegn hugverkarétti þriðja aðila, brjóta gegn viðskiptaeftirliti, neytendavernd, banni við peningaþvætti eða öðrum lögum og reglugerðum, ef þörf er á vegna netöryggisógnar eða áhættu á gagnabroti, ef sambandið við söluaðila hefur í för með sér lagalega áhættu eða áhættu um brot á reglum eða ef þörf er á slíkri stöðvun samkvæmt reglum eða stefnum App Store eða Google Play.
15.5 Að auki getur Wolt, með skriflegri tilkynningu, tafarlaust stöðvað framkvæmd samningsins, í heild eða að hluta til, eða sagt upp samningnum strax, án ábyrgðar og án tillits til þess hvort ákveðinn samningstími hafi verið umsaminn, ef söluaðili eða einhver á hans vegum misnotar Wolt vörur á þann hátt sem getur haft veruleg áhrif á Wolt, hlutdeildarfélög þess, viðskiptavini Wolt og/eða þriðja aðila, eða ef söluaðili eða einhver sem kemur fram fyrir hans hönd hefur beitt starfsmann Wolt, viðskiptavin Wolt eða sendil Wolt líkamslegu eða munnlegu ofbeldi.
15.6 Ef annar hvor aðilinn segir samningnum upp skulu allir vöruviðaukar sjálfkrafa falla úr gildi.
15.7 Allur áunninn réttur til greiðslu og viðeigandi ákvæði þessara almennu skilmála skulu halda gildi sínu eftir uppsögn samningsins.
16. ÝMISLEGT
16.1 Wolt áskilur sér rétt til að breyta skilmálum samningsins einhliða ef slíkar breytingar stafa af breytingum á lögum, þróun í viðkomandi rekstrarumhverfi eða aðstæðum sem tengjast því að veita samstarfsaðilum sínum betri eða fleiri tækifæri. Wolt áskilur sér rétt til að breyta einhliða skilmálum samningsins þ.m.t. til að gera breytingar á umboðslaunum og gjöldum, eins og gildandi lög heimila. Wolt skal tilkynna söluaðila um breytingar á samningnum áður en breytingin öðlast gildi með minnst 15 daga fyrirvara, eða í samræmi við gildandi lög. Ef söluaðili samþykkir ekki breytinguna/breytingarnar á söluaðili rétt á að segja samningnum upp með því að upplýsa Wolt skriflega innan tveggja vikna frá því að hann fékk tilkynningu um breytinguna. Ef söluaðili tilkynnir Wolt ekki um uppsögn samningsins, og heldur áfram að fá aðgang að og nota Wolt vörurnar eftir að breytingin/breytingarnar öðlast gildi telst hann hafa samþykkt breytingarnar. Breytingar verða ekki afturvirkar.
16.2 Wolt er heimilt að framselja þennan samning, eða einhver af réttindum sínum og skyldum samkvæmt samningi þessum. Söluaðila er ekki heimilt að framselja þennan samning, eða nein af réttindum sínum eða skyldum samkvæmt samningi þessum, án fyrirfram skriflegs samþykkis Wolt.
16.3 Ef eitthvert ákvæði þessa samnings reynist ógilt, ólöglegt eða óframfylgjanlegt af einhverjum ástæðum, skal það ekki hafa áhrif á önnur ákvæði þessa samnings og þessi samningur verður túlkaður eins og hið ógilda, ólöglega eða óframfylgjanlega ákvæði hafi aldrei verið hluti hans.
16.4 Ekkert umboð, samstarf, samrekstur eða atvinna skapast vegna samningsins og hefur söluaðili ekki neina heimild til að binda Wolt með nokkrum hætti.
16.5 Þessi samningur felur í sér heildarsamkomulag milli aðila og kemur í stað allra fyrri samninga milli aðila eða milli söluaðila og annarra fyrirtækja innan Wolt-samstæðunnar varðandi sama efni og teljast allir slíkir samningar vera fallnir úr gildi.
16.6 Tengiliðurinn sem söluaðili tilgreinir á skráningarforminu er aðal tengiliðurinn í málum sem varða þennan samning og söluaðili ábyrgist að tengiliðurinn sem tilgreindur er hafi heimild til að vera fulltrúi söluaðila og hafi heimild til að óska eftir og samþykkja breytingar á samningnum eða viðskiptasambandinu.